Haustið 1981 stóð Listasafn ASÍ fyrir fyrstu yfirlitissýningunni á verkum Ásgerðar, og má sjá þetta sem mikilvægan áfanga í myndistarferli hennar. Í formála sýningarskrár skrifar Hörður Ágústsson meðal annars „Fagnaðarefni er það hverju sinni þegar efnt er til úttektar a verkferli íslenskra listamanna, líkt og Listasafn alþýðu hefur frumkvæði að um þessar mundir. Svo sem í sjónhending fáum við að virða fyrir okkur þriggja áratuga árangur af lífi og starfi Ásgerðar Ester Búadóttur, fylgjast með þróunarferli eins fremsta listamanns þjóðarinnar og frumkvöðli nútíma myndvefnaðar hér á landi. Slíkt yfirlit hressir rækilega upp a minni samfylgdarmanna Ásgerðar og gefur listunnendum ómetanlegt tækifæri til að meta framlag hennar til íslenskra sjónmennta“. Á sýningunni voru 38 verk, þau tvö elstu frá 1957, en þau sex yngstu frá sýningarárinu, þar af voru fjögur sýnd í fyrsta skipti. Of langt mál er að greina alla umfjöllun um sýninguna, en má benda á að í tengslum við sýninguna birtust amk þrjú blaðaviðtöl við Ásgerði (UMF0340, UMF0343, UMF0352), og sýningardómar eftir þá Halldór Björn Runólfsson (UMF0348), Braga Ásgeirsson (UMF0350) og Gunnar Kvaran (UMF0351), sem allt veitir góða innsýn í list og feril Ásgerðar. Í tilefni sýningarinnar gaf Listasafn ASÍ einnig út litskyggnuröð 36 mynda; „Ásgerður Búadóttir – Myndvefnaður“.
Ásgerður Búadóttir ASÍ
Veist þú meira um þessa sýningu?