Um vefinn
Vefsíðan Ásgerðarsafn.is (og asgerdarsafn.is) er langtímaverkefni sem hefur að markmiði að vera uppfæranleg heildarverkaskrá (catalogue raisonné, sjá nánar neðar) yfir ofin listaverk Ásgerðar Búadóttur. Samtímis veitir síðan almennan aðgang að „listasafni“ sem gefur viðamikla sýn yfir list og feril Ásgerðar.
Verkefnisstjóri og útgefandi vefsíðunnar er Björn Þrándur Björnsson. Í fagráði verkefnisins sitja Aldís Arnardóttir listfræðingur, Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur og Ingvar Víkingsson grafískur hönnuður.
Allar upplýsingar, myndefni og umfjöllun um verk, sýningar og annað sem tengist ferli Ásgerðar er vistað í Claris FileMaker gagnagrunni. Vefsíðan (WordPress) er tengd gagnagrunninum með valkvæðum hætti, þannig að hægt er að stjórna hvaða efni úr gagnagrunninum birtist á vefsíðunni. Hugbúnaðarþróun gagnagrunnsins (FileMaker) og tengdrar vefsíðu (WordPress) hefur verið unnin af fyrirtækinu Fislausnir ehf; Kolbeinn Reginsson, Sigurður Finnsson.
Styrktaraðilar verkefnisins hingað til eru Myndlistarsjóður (2022), Myndstef (2022) og Menningarsjóður Seðlabanka Íslands tengdur nafni Jóhannesar Nordal (2023).
© Ásgerðarsafn, höfundar texta, ljósmyndarar, Ljósmyndasafn Reykjavíkur, handhafar höfundaréttar og Myndstef. Ekki má á neinn hátt afrita myndir og texta vefsins án leyfis útgefanda og höfundarréttarhafa.
Fjölda ljósmynda er að finna á vefnum. Stór hluti þeirra er úr myndasafni Ásgerðar og Björns Þrándar. Fjölmargir ljósmyndarar hafa tekið myndir af Ásgerði og verkum hennar, m.a. Kristján Pétur Guðnason, Einar Falur Ingólfsson, Viktor Smári Sæmundsson, Mats Wibe Lund og Vladimir Sichov. Ingvar Vikingsson og Páll Kjartansson hafa séð um myndvinnslu og litaleiðréttingu.
Dagblaðaljósmyndir koma einkum frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur, og eru ljósmyndarar m.a. Andrés Kolbeinsson, Árni Sæberg, Bjarnleifur J Bjarnleifsson, Einar Karlsson, Emil Þór Sigurðsson, Jens Alexandersson, Leifur Þorsteinsson, Ólafur K Magnússon, Páll Kristjánsson og Róbert Ágústsson.
Netfang vefsins er info@asgerdarsafn.is. Hafið gjarnan samband ef þið eruð með spurningar eða áhugaverðar upplýsingar.
Um catalogue raisonné
Catalogue raisonné er alþjóðlegt nafn yfir heildarverkaskrá listamanns. Tilgangur slíkrar skrár er að veita almenningi og fræðasamfélaginu heildarmynd af list og ferli listamannsins með því að safna á einn stað öllum þekktum upplýsingum í máli og myndum. Með því að birta catalogue raisonné á netinu er ekki einungis verið að gera upplýsingarnar aðgengilegar, heldur er einnig hægt að óska eftir og bæta við upplýsingum. Til dæmis tekur eigendasaga verkanna stöðugum breytingum og upplýsingar um eigendaskipti eru vel þegnar.