Æviágrip Ásgerðar
1920
Ásgerður fædd í Borgarnesi 4. desember, næstyngst fimm barna þeirra Búa Ásgeirssonar verslunarmanns frá Stað í Hrútafirði og Ingibjargar Teitsdóttur konu hans. Systkini hennar voru Sören Alfreð Búason, kallaður Alfreð (1909-1995), Sólveig Búadóttir, kölluð Lolla (1910-2004), Oddný Þórunn Búadóttir Bendtsen, kölluð Tóta (1915-1964) og Inga Hrefna Búadóttir, kölluð Inga (1928-2009). Hún var skírð Ásgerður Ester á aðfangadag jóla sama ár. Esterar nafnið var ávallt mikið notað innan fjölskyldunnar, en sem listamaður felldi hún það fljótlega burt og skrifaði sig nær alltaf sem Ásgerður Búadóttir.
1923
Flytur þriggja ára gömul með foreldrum sínum til Reykjavíkur.
1934
Gengur í Miðbæjarskóla Reykjavíkur og lýkur fullnaðarprófi barna þrettán ára um vorið 1934, með hæstu einkunn í teikningu (10).
1939
Æfir á unglingsárunum fimleika með kvenfimleikaflokki KR og siglir meðal annars þann 27. mars 1939 með Dronning Alexandrine til Kaupmannahafnar, þar sem flokkurinn tekur þátt í hátíðamóti danska fimleikasambandsins.
1942
Innritast í Handíða- og myndlistaskólann í Reykjavík og er fyrst á kvöldnámskeiði í teikningu.
1943-45
Stundar nám í tvö ár við myndlistardeild skólans, m.a. undir handleiðslu Kurt Zier, sem lagði mikla áherslu á anatómíu- og módelteikningu.
1946-49
Stundar nám í þrjú ár við málaradeild við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn undir handleiðslu listmálarans Vilhelms Lundstrøm.
1947
Fer námsferð til Hollands.
1947
Gengur að eiga Björn Th. Björnsson listfræðing þann 27. júní og eignast soninn Baldvin 21. desember það ár.
1948-49
Hlýtur styrki til náms í málaralist frá Menntamálaráði Íslands, 2000 kr bæði árin.
1949
Fer námsferð til Frakklands.
1950
Flytur til Íslands og byrjar að vefa. Sækir vefnaðarnámskeið hjá Guðrúnu Jónasdóttur.
1950-52
Kennir teikningu á námskeiðum Handíða- og myndlistaskólans.
1950
Sýnir sín fyrstu ofnu verk með hópnum Lauganesleir á Café Höll.
1951
Myndskreytir, ásamt öðrum, ljóðabókina Mér eru fornu minnin kær, útgefin af Menningar- og fræðslusambandi alþýðu.
1952
Fæddur sonur, Björn Þrándur, þann 1. ágúst.
1956
Vinnur til gullverðlauna á 8. Alþjóðlegu list- og handverkssýningunni í München fyrir tvo vefnaði nefnda Stúlka með fugl.
1957
Er í hópi íslenskra myndlistarmanna sem taka þátt í norrænu yfirlitssýningunni Nordisk konst 1947-1957: måleri, skulptur, grafik, dekorativ konst í Gautaborg.
1958-59
Er í hópi íslenskra listarmanna og hönnuða sem taka þátt í norrænu yfirlitssýningunni Formes Scandinaves í París.
1961
Semur og myndskreytir með klippimyndum barnabókina Rauði hatturinn og krummi, gefin út af bókaforlaginu Helgafelli.
1962
Vinnur röð veggmynda úr steinsteypu á útveggi félagsheimilisins Stapa í Ytri-Njarðvík í samstarfi við Sigvalda Thordarson arkitekt.
1962
Heldur fyrstu einkasýningu sína á heimili sínu að Karfavogi 22.
1962
Fær styrk úr ferðasjóði Barböru og Magnúsar Á. Árnasonar til kynnisferðar til Flórens, Siena og Rómar. Heimsækir einnig 1. Alþjóðlega tvíæringinn í vefjarlist í Lausanne.
1964
Veitt innganga í Félag Íslenskra Myndlistarmanna og sýnir með þeim 10 sinnum yfir um 20 ára tímabil.
1965
Heimsækir 2. Alþjóðlega tvíæringinn í vefjarlist í Lausanne, Sviss.
1968
Heimsækir 3. Alþjóðlega tvíæringinn í vefjarlist í Lausanne, Sviss.
1968
Fædd dóttir, Þórunn, þann 20. ágúst.
1970
Vefur verkið Stormhörpuna sem kaupstaðir Íslands færa Norræna húsinu að gjöf.
1974
Er einn stofnfélaga Textílfélagsins.
1975
Boðin þátttaka í sýningum listamannasamtakanna Koloristerne í Den Frie í Kaupmannahöfn. Sýnir með þeim sem fullgildur meðlimur næstu 17 árin.
1976
Valin á sýningu myndlistargagnrýnenda, Val 76, á Kjarvalsstöðum.
1976
Situr í dómnefnd I. Norræna textílþríæringsins fyrir Íslands hönd.
1978-79
Valin af Menningarsjóði Norðurlanda til að vefa verk í fundarsal Menningarmálaskrifstofunnar í Kaupmannahöfn. Á aðalfundi Menningarsjóðs Norðurlanda, 14. desember 1979, er listaverkið Þar sem eldurinn aldrei deyr formlega afhent.
1979-80
Situr í dómnefnd II. Norræna textílþríæringsins fyrir Íslands hönd.
1981
Fyrsta yfirlitssýning á verkum hennar er haldin í Listasafni ASÍ.
1981
Hlýtur starfslaun listamanna í fyrsta sinn.
1982
Hlýtur Menningarverðlaun DV fyrir myndlist. Vefur verkin Askur og Embla fyrir Verslunarbanka Íslands.
1982-83
Vefur verkið Sól ræður sumri fyrir Landsbanka Íslands.
1983
Kennir eina önn við textíldeild Myndlista-og handíðaskólans.
1983-84
Útnefnd Borgarlistamaður Reykjavíkur.
1988
Vefur verkið Geisladagar fyrir Fjölbrautarskóla Suðurnesja, með styrk frá Listskreytingasjóði.
1989
Gerð að heiðursfélaga í Textílfélaginu.
1993
Hlýtur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu.
1995
Hlýtur heiðurslaun listamanna, veitt af alþingi.
1999
Gerð að heiðursfélaga í Félagi Íslenskra Myndlistarmanna.
1999
Heldur sína síðustu einkasýningu með nýjum verkum að Gallerí Ingólfsstræti 8.
2000
Afhendir Hönnunarsafni Íslands vefstól sinn til vörslu.
2014
Látin 19. maí, 93 ára að aldri.
2020
Listasafn Reykjavíkur heldur yfirlitssýningu á verkum Ásgerðar, Lífsfletir, í tilefni 100 ára fæðingarafmælis hennar.
2020
Listasafn Íslands heldur yfirlitssýningu á íslenskri nútíma vefjarlist, Listþræðir, til heiðurs Ásgerði í tilefni 100 ára fæðingarafmælis hennar.