Á þessari samsýningu þeirra Ásgerðar og Svavars Guðnasonar í sýningarrými Kaupmannahafnarborgar í Nikolaj kirkjunni, sem Bent Nebelong borgarstjóri Kaupmannahafnar opnaði, voru 11 myndvefnaðir Ásgerðar og 80 vatnslita- og pastelmyndir Svavars. Sýningin hlaut mjög góða dóma og vakti verðskuldaða athygli, enda vel fyrir komið og hrifmikil, að sögn Braga Ásgeirssonar (UMF0414). Í Politiken (UMF0917) var skrifað „De to islændinges udstilling har fået fællestitelen ‘lslandsk farvespil’, og det er et særkende ved den, at den taler med stærke farver. Det er samtidig en udstilling, der allerede på forhånd har været genstand for stor opmærksomhed blandt gallerifolk og kunstkendere fra hele Europa“. Það gerist síðan, sjá frétt í Þjóðviljanum (UMF0413) að verki Ásgerðar, Í klakaböndum, 1983 (ÁB120) var stolið af sýningunni. Fram kemur í fréttinni að listaverkinu hafi verið stolið einhverja allra síðustu dagana sem sýningin stóð, kannski jafnvel síðasta sýningardag, sem var 19. ágúst 1983. Í fréttinni kemur einnig fram að lögregla hafi verið látin vita og sé að rannsaka málið. Ágiskun forstöðumanns sýningarinnar var að „stranganum hafi verið hent út um glugga á sýningarsalnum“. Ef sú ágiskun er rétt mætti ætla að minnsta kosti tvær manneskjur hafi komið að stuldinum. Verkið hefur aldrei fundist og allar upplýsingar um málið því vel þegnar. Engar kröfur verða gerðar á hendur „eiganda“ verksins. Þar sem verkið átti að vera hluti af einkasýningu Ásgerðar að Kjarvalsstöðum seinna um haustið (SÝN060) og búið var að prenta sýniningarskrána, óf hún annað verk (ÁB121; Í klakaböndum II) eftir sömu teikningu, fyrir þá sýningu.