Þessi sýning, haldin á Listasafni ASÍ við Grensásveg, var önnur samsýning Textílfélagsins, sem hafði verið stofnað 1974. Í sýningarnefnd voru Aðalheiður Skarphéðinsdóttlr, Anna Halla Björgvinsdóttir, Eva Vilhelmsdóttir, Ina Salóme Hallgrímsdóttir, Hanna G. Ragnarsdóttir, Hulda Jósefsdóttir, Guðrún Jónasdóttir, Sigríður Jóhannsdóttir og Hildur Hákonardóttir. Hildur segir meðal annars svo í formála sýningarskrár „Það óvenjulega við Textílfélagið er að það liggur beggja vegna landamæra þeirra, sem í dag afmarka listir annars vegar og nytjalistir og hönnun hins vegar. Þetta er engin tilviljun, því félagið var stofnað í því augnamiði að sinna þessu tvöfalda hlutverki“. Í sýningarskrá voru allir (28) félagsmenn kynntir, en samkvæmt skrifum Aðalsteins Ingólfssonar (UM0335) tóku 22 þeirra þátt í sýningunni með 64 verk; ullarvefnað, tauþrykk, myndvefnað, fatahönnun, prjón og skúlptúra. Samt er sá galli á sýningarskránni, að hún er í raun einungis félagatal, en í henni eru hvorki upplýsingar um hverjir sýndu eða hvaða verk. Líklegast hefur einnig verið til verðlisti, þar sem þessar upplýsingar hafa komið fram, og væri slíkur listi vel þeginn. Það er því einungis úr máli og myndum dagblaðaumfjöllunar að hægt er að sjá að Ásgerður hafi verið með þrjú verk á sýningunni; Tenning með tilbrigði I og II (ÁB105 og ÁB106) sjást á vegg bakvið sýningarnefndina á blaðaljósmynd Péturs Ben, og verkið Sjö lífsfletir (ÁB101), er nefnt í umfjöllun (UM0334) sem dýrasta verki sýningarinnar (25.000 kr). Bæði Aðalsteinn Ingólfsson (UMF0335) og Bragi Ásgeirsson (UMF0729) báru lof á sýninguna sem hina glæsilegustu, og væri því sérstaklaga gaman ef það fyndust fleiri ljósmyndir frá sýningunni – kannski í fórum sýnenda!?
Textílfélagið
Veist þú meira um þessa sýningu?