Haustsýning FÍM var haldin að Kjarvalsstöðum og með töluvert nýju sniði, þar sem fimm myndlistarmenn voru valdir sem „kjarni“ eða „heiðursgestir“ sýningarinnar, þau Ásgerður Búadóttir vefari, Guðmundur Benediktsson myndhöggvari, Leifur Breiðfjörð glermyndasmiður, Valtýr Pétursson listmálari og Þórður Hall grafíker. Þessi fimm voru því með tiltölulega mörg verk á sýningunni, og Ásgerður sýndi sjö myndvefnaði, þar á meðal frumsýndi hún verkið Sjö lífsfletir, 1980 (ÁB101). Um það segir hún (UMF0328) „Já, ég óf þessa mynd í minningu sjö kollega minna í listinni, og allar konur. Við vorum á svipuðu reki og allar í FÍM utan ein, sumar okkar voru vinkonur, aðrar saman í skóla og nú eru þær dánar. Þær voru Nína, Gerður, Eyborg, Barbara, Aslaug, Ragnheiður og María”. Þetta verk er nú í eigu Listasafns Reykjavíkur. Þeir Aðalsteinn Ingólfsson (UMF0330) og Bragi Ásgeirsson (UMF0332) fjalla báðir um sýninguna á mjög jákvæðum nótum og eru báðir sérlega hrifnir af breytingu á sýningarforminu. Aðalsteinn skrifar t.d. „En mestu skiptir kannski að á þessari Haustsýningu er stigið fyrsta skrefið í átt til grundvallarbreytinga á sýningarforminu. Megi sú þróun halda áfram og þá fara þúsund blóm eflaust að blómstra”. Um verk Ásgerðar skrifar Aðalsteinn „Ásgerður Búadóttir fer ekki út í nýja sálma á þessari sýningu, en það er ávallt mikil hátíð fyrir augað að sjá mörg verk hennar samankomin. Stærsta verk hennar hér og jafnframt eitt það nýjasta, „Sjö lífsfletir”, er áhrifamikið verk“. Þá skrifar Bragi „Ásgerður Búadóttir á einstaklega fallega veggteppasamstæðu, sem undirstrikar sterkan persónuleika og þá sérstöðu er hún hefur markað sér með verkum sínum á Norðurlöndum“.