Á þessari haustsýningu FÍM voru 124 verk eftir 40 listamenn sýnd í öðrum sal Kjarvalsstaða. Gagnrýnendurnir Jónas Guðmundsson (UMF0282) og Ólafur Kvaran (UMF0283) kvörtuðu sáran yfir því hve sýningin væri lítil í sniðum og hve marga góða myndlistarmenn vantaði. Þriðji gagnrýnandinn, Valtýr Pétursson, kemur hins vegar með skýringu á þessu með því að benda á sívaxandi fjölda sýningarhópa og sýninga í Reykjavík og að „Samt er ekkert lát á þeirri elfu, sem fram streymir”. Ásgerður var hér, eins og 1976, í sýningarnefnd FÍM. Einnig sýndi hún 3 verk og fær góða dóma fyrir. Jónas skrifar „Ásgerður Búadóttir sýnir þrjár ofnar myndir, sem eru hver annarri betri og þær setja mikinn svip á þessa sýningu“. Valtýr skrifar „Ásgerður Búadóttir sýnir ágæt teppi, nr. 12 fannst mér bera af“. Þar á hann við verkið Tveir heimar, 1977 (ÁB085) sem nú er í einkasafni alþjóðlega listaverkasafnarans Michell Wolfson Jr. og því annað hvort í Bandaríkjunum eða Sviss. Enn er verið að reyna að finna verkið Sólmánuður, 1976 (ÁB084), sem líklegast er í London, meðan Af stuðlum, 1977 (ÁB086) er í góðum höndum í Berlín. Myndir frá sýningunni eru vel þegnar.