Haustið 1962 hélt Ásgerður sína fyrstu einkasýningu heima hjá okkur á Karfavoginum, þar sem stofunni/vinnustofunni var breytt í sýningarsal. Telst sú sýning vera fyrsta listsýningin á Íslandi með myndvefnaði eingöngu. Í stuttu viðtali í Mbl segir hún m.a. „Það er verst að þurfa að halda sýninguna svona úr almannaleið…Enn sem komið er, er ekki til neinn lítill sýningarsalur hér í bæ, þar sem listafólk getur komið á framfæri einhverju smávegis“. Og bætir við „Ég var í fyrstu svolítið kvíðin því, en drengirnir mínir tveir eru orðnir hálfstálpaðir og þeir hafa lofað að vera með engin ólæti. Og ég vona að þetta fari allt vel“. Hún sýndi 13 verk og 2 virðast hafa bæst við samkvæmt handskrifuðum punktum á lítilli verðskrá. Af þessum 15 verkum, eru níu þekkt en sex verk eru enn óþekkt. Engar myndir hafa enn fundist af sýningunni sem gætu gefir fleiri vísbendingar um verkin. Skoðið gjarnan safnspjall frá 14/5 2025 um sýninguna og mögulega kaupendur einhverra verkanna sem leitað er að.