Sýning Ásgerðar að Kjarvalsstöðum 1984 var mikil og metnaðarfull einkasýning, þar sem hún sýndi 16 ný verk, ofin á árunum 1980 (1), 1981 (6), 1982 (2), 1983 (3) og 1984 (4), mörg þeirra mjög stór. Hvati sýningarinnar hefur að einhverju leiti verið að hún hafði verið valin sem borgarlistamaður Reykjavíkurborgar 1983-1984. Þrír gagnrýnendur skrifuðu um sýninguna; Bragi Ásgeirsson (UMF0418), Halldór B. Runólfsson (UMF0419) og Gunnar B Kvaran (UMF0421). Bragi, eins og nær alltaf þegar hann skrifaði um sýningar Ásgerðar, er einkar upptekinn við að verja málverkið sem „æðri“ listgrein. Þó listvefnaður sé ágætur er hann listiðn frekar en myndlist og það megi alls ekki setja hann á stall með málverkinu. Mörg rök hans í þessu sambandi kalla því miður fram smá aulahroll. Halldór fjallar um sýninguna á mun opnari hátt og greinir minimalisman/naumhyggjuna í verkum hennar á mjög athyglisverðan hátt. Gunnar skrifar einnig um sýninguna á mjög uppbyggilegan hátt, en þegar hann segir að „list Ásgerðar hefur tekið litlum breytingum á síðastliðnum tíu árum“ hljómar það eins og það sé óvenjulegt meðal myndlistarmanna? Þrátt fyrir að hafa verið valin borgarlistarmaður, stóð Ásgerður fyrir öllum kostnaði sýningarinnar; leigu á sal og gæslu, prentun sýningarskrár og prentun og póstsendingu boðskorta. Hún færði nokkuð nákvæmlega til bókar kostnað og tekjur og gaman að glugga í það. Þrjú verkana hafði hún selt fyrir sýninguna, níu seldust á sýningunni og fjögur fljótlega eftir sýninguna. Samantekið, á verðlagi dagsins í dag (2025) seldust 16 verk sýningarinnar á tæpar 34 milljónir.