Á einkasýningu sinni í Gallerí Borg sýndi Ásgerður 9 verk unnin á árunum 1986-1989. Einungis tvö elstu verkin (1986) höfðu komið fyrir sjónir almennings áður; Norðrið (ÁB130) og Speglun (ÁB133), sem höfðu áður verið á sýningu hennar í Listasafni ASÍ 1987 (SÝN066). Af þeim sjö verkum sem sýnd voru í fyrsta skipti voru fjögur sem mynduðu sérstaka heild. Í viðtali (UMF0495) sagði hún svo frá „Yfirskrift nokkurra þessara verka er „Gengið með sjó“. Þannig var það líka nákvæmlega. Ég gekk í nokkur skipti við ströndina hjá Gróttu í vor sem leið og ég fékk í öll skiptin næstum sama veðrið, afskaplega fallegt veður. Það var stafalogn og himinn og haf runnu út í eitt, í ljósblátt — og það var mikil þögn. Út frá þessum áhrifum vann ég verkin sem ég kalla Ögurstundir. Ég hef afar sjaldan unnið með eins Ijósa liti og ég nota í þeim myndum. Ég er ekki viss um að ég hefði notað slíka liti nema vegna þeirra áhrifa sem ég varð þarna fyrir. Mér finnst ekki alltaf rétt að gefa verkum nöfn sem ákveða fyrir fólk hvaða áhrifum það á að verða fyrir. En í þessu tilviki fannst mér ég endilega þurfa að gefa verkunum nöfn sem vísuðu til þeirra áhrifa sem ég varð þarna fyrir“. Af þessum fjórum verkum, voru þrjú nokkuð jafnstór og nefnd Ögurstund I, II og III. Af þeim er Ögurstund I í einkaeign, Ögurstund II í eigu Listasafns Reykjavíkur, en ekkert er vitað um Ögurstund III, hvorki eiganda né útlit, því engin ljósmynd af því hefur fundist. Á sýningunni var stærsta verkið af þessum fjórum nefnt Boðinn eini. En síðar gerði Ásgerður þá breytingu á verkinu, að hún bætti tveimur hliðarflötum við það (sjá ÁB145) og gaf því nafnið „Gengið með sjó“. Myndin úr vinnustofunni sýnir það tilbúið sem þrístæðu, og hespur af fölbláa bandinu hanga á vefstólnum. Ljósmyndir frá sýningunni eru vel þegnar. Leitað er núverandi eiganda verksins „Ögurstund III“.