Á árunum 1982-1983 réðust Norðurlöndin í geysilega yfirgripsmikið kynningarátak í Bandaríkjunum á norrænni menningu undir yfirskriftinni Scandinavia Today. Myndlist og listiðnaður var kynntur með fjórum samsýningum. Þrjár sýninganna voru opnaðar samtímis, þann 13/9 1982 í hjarta Manhattan og lá rauður dregill eftir 5th Avenue á milli safnanna. Haraldur, krónprins Noregs, opnaði listiðnaðarsýninguna Scandinavian Modern 1880-1980 í Cooper-Hewitt-safninu, Bertil, Svíaprins, opnaði grafíksýninguna The Scandinavian View: Ecology and Poetry in Nordic Printmaking í National Academy of Design, og Henrik Danaprins opnaði nútímasýninguna Art Now Contemporary Scandinavia í Guggenheim-safninu. Daginn eftir opnaði Per Steinbeck, utanríkisráðherra Finna, textílsýninguna The Scandinavian Touch, Contemporary Scandinavian Textile í Fashion Technology Institute (SÝN056). Það er skýrt dæmi um það hvernig litið var á myndvefnað Ásgerðar að hún átti verk á tveimur þessara sýninga, listiðnaðarsýningunni og textílsýningunni. Cooper Hewitt-safnið er iðnhönnunarsafn Smithsonian-stofnunarinnar. Sýningin Scandinavian Modern 1880-1980 gaf yfirlit yfir þróun listiðnaðar og hönnunar á Norðurlöndunum. Íslensku listamennirnir, sem áttu verk á sýningunni voru leirlistamennirnir Guðmundur Einarsson frá Miðdal, Gestur Þorgrímsson og Sigrún Guðjónsdóttir, Jónína Guðnadóttir og Steinunn Marteinsdóttir, veflistamennirnir Júlíana Sveinsdóttir, Ásgerður Búadóttir, Sigríður Jóhannsdóttir og Leifur Breiðfjörð, og Þorbjörg Þórðardóttir, gullsmiðirnir Jens Guðjónsson og Guðbrandur Jezorski, og húsgagnaarkitektarnir Sveinn Kjarval, Gunnar Magnússon og Pétur Lúthersson. Eftir að sýningunni lauk í NY 2/1 1983 fór hún til Minnesota Museum of Art at Landmark Center, Minnesota (27/2 – 24/4 ’83) og til Renwick Gallery of the National Museum of American Art, Washington DC (8/7 – 10/10 ’83). Árið eftir var sýningin síðan opnuð á Listiðnaðarsafni Danmerkur í Kaupmannahöfn (2/2 – 1/4 ’84). Photos, newspaper coverage and any other information on the exhibition is greatly appreciated.