Eftirfarandi texti er tekinn úr umfjöllun (UMF0365) sem birtist í Þjóðviljanum og er mjög góð samantekt á birtum sýningardómum: Ásgerði Búadóttur myndvefara var boðið að taka þátt í sýningunni, einni gesta en hún hefur áður sýnt þrisvar með „Koloristerne“ síðan 1975. Hafa nú borist dómar um sýninguna, sem birtust í Kaupmannahafnarblöðunum Politiken og Information. Gertrud Köbke Sutton listfræðingur skrifar grein í Information sem hún nefnir Kunst uden kunstighed — List án tilgerðar. Um sýninguna i heild segir hún m.a.: „Koloristerne er samræmdur hópur þroskaðra einstaklinga, sem vita hvað þeir geta— og gera það. Því eru sýningarsalir Den Frie fullir af lifandi, skynrænum og persónulegum listaverkum.“ Síðan rekur hún hlut ýmissa sýnenda og segir: „Hjá myndvefurunum tveim, Nönnu Hertoft og Ásgerði Búadóttur, er efnið og handverkið ekki síður lausnarorð tjáningarinnar. Í verkum hins íslenska gests fer frjálsleiki efnisins og ljós myndskipun saman og verða til þess að skapa lifandi, hlýja og tilfinninganæma vefmynd. Að nokkrum hluta er hún að segja okkur frá Íslandi, í litum og formum, en að hluta gerir hún okkur mögulegt að upplifa beint raunveru Íslands, með því að láta verk sín mynda bakgrunn móti snöggu risi hins stríða og óspunna hrosshárs.“ Gertrud Köbke Sutton lýkur grein sinni með þessum orðum: ,,Í ljóma þessa samstirnis, sem ekki er þó samspil, heldur tvöföld staðfesting á þeim undramætti listarinnar að vekja mannshugann, uppgötvum við hluti sem við höfum áður gengið blindandi hjá.“ Pierre Lübecker skrifar grein í Politiken, sem hann nefnir I stille medvind — Í hægum meðbyr. Í upphafi greinarinnar rekur Lübecker hálfrar aldar feril Koloristerne, mótbyr þeirra og meðbyr, og telur sýninguna nú hafa styrkst, eftir nokkra lægð. Síðan segir hann: ,,Það er Sigrid Lütken, Finn Nielsen og Astrid Klenau, sem auðga sýninguna hvað mest með sínum stórsniðnu verkum. Öll þrjú hafa þau hér lagt til verk sem vekja aðdáun. En það er Nanna Hertoft og hinn íslenski gestur sýningarinnar, Ásgerður Búadóttir sem eiga heiðurinn af hinum ríkulegu myndvefnaðarverkum, þar sem hið litræna og efniskennda standa í samræmi á innblásinn hátt. Ég vil enda orð mín með þessu afmælisheilræði til hins gróna sýningarhóps: Gætið vel að þessari Íslensku listakonu, — hún hæfir þessum hópi eins og hönd glófa.“. Ljósmyndir frá sýningunni væru vel þegnar.