Haustsýning FÍM 1978 var sú fyrsta sem haldin var í eigin húsnæði, FÍM-salnum að Laugarnesvegi 112. Þar sem salurinn var miklu minni sýningarsalir fyrri ára, sérstaklega Kjarvalsstaða, var sýningunni sett takmörk, bæði að einungis félagsmenn FÍM gætu tekið þátt og að einungis væri hægt að sýna lítil verk. 26 félagsmenn sýndu 68 verk. Ásgerður var með tvö verk á sýningunni, Tilbrigði í brekán I og II (ÁB093 og ÁB094) sem bæði voru 49×51 cm. Valtýr Pétursson fjallaði um sýninguna (UMF0297) og minntist stuttlega á þau „Ásgerður Búadóttir átti þarna tvö lítil verk, vefnaður í hennar anda“, en stórum hluta umfjöllunarinnar ver hann í að skamma ríkisstjórnina fyrir skatta á olíulitum og skrifar meðal annars „Þá veit maður það, góðir hálsar, að klámrit og þess konar lesmál er óskattað, en litir í málverk hinn argasti auðvaldslúxus, sem af skal tekinn með jafnrétti borgaranna, en auðvitað eru listamenn hvorki borgarar né verkalýður. Þeir eru einfaldlega réttlausar skepnur, utanveltu í því þjóðfélagi, sem margir þeirra hafa stuðlað að að koma á fót“. Hvað varðar verk Ásgerðar á sýningunni, þá er Tilbrigði í brekán I (ÁB093) í góðum höndum, en Tilbrigði í brekán II (ÁB094) er týnt og tröllum gefið. Engin ljósmynd er til, en góð ágiskun er að verkin séu svipuð í mynduppbyggingu. Allar upplýsingar og/eða myndir frá sýningunni eru vel þegnar.
Haustsýning FÍM
Veist þú meira um þessa sýningu?