Það hefur verið mikið grettistak að koma þessum fyrsta þríæringi norrænna textíllistamanna upp, og fjölmargir lagt hönd á plóg. Verkefnið hlaut veglegan 4 Mkr styrk frá Norræna menningarmálasjóðnum, með því skilyrði að þetta yrði farandsýning um öll norðurlöndin. Þátttaka í sýningunni var öllum opin, en einungis tekin verk unnin í listrænum tilgangi. Ekkert sérstakt þema var á sýningunni, þar sem litið var á hana sem fyrstu tilraun til að fá yfirsýn yfir listgreinina, koma á nánara sambandi milli þeirra sem stunda vefjarlist og styrkja greinina i sessi. Hvert norðurlandanna skipaði starfshóp sem tók á móti umsóknum og innsendum verkum, og vann að uppsetningu sýningarinnar. Á Íslandi var það stjórn Félags textílhönnuða sem tók verkið að sér; Ragna Róbertsdóttir, Sigríður Jóhannsdóttir, Steinunn Bergsteinsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Hildur Hákonardóttir, en Ásgerður var fulltrúi Íslands í samnorrænu dómnefndinni. 114 Danir, 107 Svíar, 34 Norðmenn, 40 Finnar og 16 Íslendingar sendu inn alls um 800 verk, sem voru öll send til Álaborgar, þar sem samnorræna dómnefndin valdi 100 verk til sýningar. Þær Arndís Ögn Guðmundsdóttir, Ásgerður Búadóttir, Ragna Róbertsdóttir, Sigrún Sverrisdóttir, Sigurlaug Jóhannsdóttir og Þorbjörg Þórðardóttir áttu alls 10 verk á þessum fyrsta textílþríæringi. Sýningin var fyrst sett upp í Nordjyllands Kustmuseum í Álaborg um sumarið 1976, og seinna sama ár í Kunstsentret Høvikodden í Osló, Malmö konsthall og í Väinö Aaltonens Museum, í Åbo. Veturinn 1977 kom hún síðan til Íslands og sett upp á Kjarvalsstöðum og að endingu í Listaskálin í Þórshöfn.

I. Nordisk textiltriennale

SÝN041
1976-1977
26/6 – 26/3
Álaborg, Oslo, Malmö, Abo, Reykjavik, Torshavn
Norræn samsýning/ farandsýning

Veist þú meira um þessa sýningu?