Þetta ár höfðu samtök gagnrýnenda verið stofnuð og af því tilefni efndu myndlistargagnrýnendur til sýningarinnar „Val ’76“. Að henni stóðu þeir Valtýr Pétursson, Bragi Ásgeirsson, Aðalsteinn Ingólfsson, Ólafur Kvaran og Jónas Guðmundsson. Þetta virðist hafa verið einhverskonar „íþróttamaður ársins“ dæmi. Tilhögun var sú að hver gagnrýnendanna gat tilnefnt einn listamann. Síðan greiddu þeir atkvæði um 30-40 listamenn sem höfðu sýnt á árinu og voru þeir valdir á sýninguna sem fengu 4-5 atkvæði. Sýnendur urðu Ásgerður Búadóttir, Gunnar Örn Gunnarsson, Haukur Dór Sturluson, Hjörleifur Sigurðsson, Jóhannes Geir, Karl Kvaran, Kristján Davíðsson, Kristján Kristjánsson, Magnús Kjartansson, Magnús Pálsson, Ragnheiður Jónsdóttir, Ragnheiður Ream, Richard Valtingojer, Sigurjón Ólafsson, Torfi Jónsson, og Þórður Hall. Þorvaldur Skúlason hafði einnig verið valinn en gat ekki tekið þátt. Verk Ásgerðar voru Jökulrós (ÁB075) og Huldulauf (ÁB077), en þau höfðu verið á haustsýningu FÍM fyrr um haustið. Myndir frá sýningunni eru vel þegnar.