Árið 1976 var búið að leysa Kjarvalsstaðamálið svokallaða og FÍM hélt haustsýninguna að Kjarvalsstöðum. Eitthvað hefur jafnréttisbarátta áttunda áratugsins með Rauðsokkahreyfingunni og alþjóðlega kvennaárinu 1975 verið að skila sér inn í listalífið, því nú brá svo við að í fyrsta skipti í sögu FÍM var jafnræði milli karla og kvenna í sýningarnefnd, og var Ásgerður þar á meðal. Á þessum árum var fjölmiðlaumfjöllun um sýningar með afbrigðum yfirgripsmikil. Um þessa sýningu birtast fjórir langir sýningardómar, 1-2 vel myndskreyttar síður: eftir Einar Hákonarson í Vísi (UMF0257), Jónas Guðmundsson í Tímanum (UMF0258), Braga Ásgeirsson í Morgunblaðinu (UMF0259) og Ólaf Kvaran í Þjóðviljanum UMF0260). Samkvæmt þessu listrýnum kemur Ásgerður gífurlega sterk inn í þessa sýningu með fjögur verk. Meðal annars er skrifað: „Í myndvefnaði ber Ásgerður Búadóttir höfuð og herðar yfir stallsystur sínar, sem þarna sýna vefnað, og hef ég ekki í langan tíma séð eins vel unnin og heilleg verk i þessari listgrein“ (Einar Hákonarson). „Ásgerður Búadóttir sýnir vandaðan, listrænan vefnað sem teljast verður í sérflokki.“…„Vefnaður Ásgerðar Búadóttur er listfengur og traustur i senn, og hrosshárin gefa myndvefnaði hennar líf og sögu“ (Jónas Guðmundsson). „Eitt af glæsilegustu verkum á Haustsýningunni er þessi mikla mynd Ásgerðar Búadóttur „Skarðatungl“… „Vefnaðarmyndir Ásgerðar Búadóttur eru hver annarri betri og bera þær af slíkum á sýningunni, einkum er myndin „Skarðatungl“ eftirminnilegt afrek“ (Bragi Ásgeirsson). Enda kaupir Listasafn Íslands verkið Skarðatungl (ÁB082) á sýningunni. PS. Fyrirsögn greinar Einars Hákonarsonar (UMF0257) í rauðu stríðsletri er „Allt húsið er undarlegt“, en við lestur kemur í ljós að Einar hafði skrifað, þegar hann lýsti sýningunni á Kjarvalsstöðum „Allt húsið er undirlagt“.
Haustsýningin 1976 FÍM
Veist þú meira um þessa sýningu?