Eftir að hafa verið á Kjarvalsstöðum 1973, var FÍM nú aftur komið með haustsýninguna í Norræna húsið, vegna deilu um gæðamat á sýndum verkum, sem var nefnd „Kjarvalsstaðamálið“ í fjölmiðlum. Sýningarnefnd FÍM bárust 210 verk eftir bæði félags- og utanfélagsmenn. Voru 96 þeirra tekin til sýningar; teikningar, grafík, collage, vatnslitamyndir, olíumálverk, vefnaður og skúlptúr. Þeir Jónas Guðmundsson, Bragi Ásgeirsson, Níels Hafstein og Aðalsteinn Ingólfsson skrifuðu allir langa og ýtarlega sýningardóma með mismunandi áherslum. Jónas (UMF0246) pældi mikið í hvað væri „íslenskt“ í íslenskri myndlist og skrifaði meðan annars „Þó vil ég í þessu sambandi minna á vefnað Ásgerðar Búadóttur, sem virðist sameina erlenda formbyltingu og alíslenzka hefð“. Í upphafi sinnar greinar velti Bragi töluvert fyrir sér (UMF0247) hve litlu væri haldið til haga hvað varðar íslenskar listsýningar og skrifaði meðal annars „Væri fróðlegt að gera úttekt á haustsýningum félagsins svo og öllum slíkum samsýningum frá stofnun þess, en sennilega er það torsótt og nær vonlaust verk þar sem heimildir, Ijósmyndir og önnur gögn, liggja ekki á lausu og einungis við blaðafréttir og umsagnir í blöðum að styðjast“. Eru þetta orð að sönnu! Níels veltir fyrir sér (UMF0741) tilgangi þess að vera félagsbundinn FÍM þegar um helmingur sýnenda eru utanfélagsmenn, og Aðalsteinn greinir þetta áfram á fróðlegan hátt (UMF0743), þar sem hann bendir á að fjöldi bæði innsendra og sýndra verka á haustsýningu FÍM hafi minnkað til muna og nefnir sýningar Septem og SÚM hópanna sem hluta skýringarinnar. Um vefnað og Ásgerði skrifar hann „Litið er um vefnað á þessari sýningu, en samt fer Ásgerður Búadóttir á kostum i mynd sinni „Huldulauf” sem endranær. Verk hennar er ríkt bæði af formhugsun og áferð, en vefur Barböru Árnason er einnig skemmtilegt verk“. Öllum þessum sýningardómum og fréttatilkynningum fylgir töluverður fjöldi ljósmynda af sýningunni, og væri mikill fengur ef einhverjar þeirra fyndust í ljósmyndaöfnum.
Haustsýning FÍM
Veist þú meira um þessa sýningu?