Sameinuðu Þjóðirnar útnefndi árið 1975 sem alþjóðlegt kvennaár, og af þessu tilefni stóðu Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna, Félag íslenskra myndlistarmanna og Norræna húsið sameiginlega að þessari sýningu. Þar sýndu 44 konur 67 verk, málverk, grafík, höggmyndir, vefnað, silfursmíði, keramík, batík, húsgerðarlist og steint gler. Gagnrýnendurnir Valtýr Pétursson UMF0243) og Elísabet Gunnarsdóttir (UMF0244) voru ekki sérlega hrifin af sýningunni, aðallega vegna þess hve sundurleit hún var og að verkin hefðu enga innbyrðis tenginu aðra en að vera eftir konur. vegna þess að hana skorti. Eins og kollegi hans, Bragi Ásgeirsson einatt gerði, bullar Valtýr hér um að listvefnaður sé aldagömul listgrein íslenskra kvenna. Gagnrýni Aðalsteins Ingólfssonar (UMF0245) er bæði fræðandi, um konur í alþjóðlegu listasögunni, og fjallar nokkuð ýtarlega um einstök verk sýningarinnar. Ljóst er af skrifum gagnrýnenda að myndvefnaðurinn hafi verið sterkasti hluti sýningarinnar, enda verk tólf vefara á sýningunni. Myndvefararnir voru þær Anna Þóra Karlsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Ásgerður Búadóttir, Barbara Árnason, Hanna G Ragnarsdóttir, Hildur Hákonardóttir, Hólmfríður Bjartmarsdóttir, Ragna Róbertsdóttir, Sigríður Jóhannsdóttir, Sigrún Sverrisdóttir, Vigdís Kristjánsdóttir og Þorbjörg Þórðardóttir, sem sýnir hve textíllistin var í sterkri framþróun á Íslandi á þessum tíma. Á þeim fáu ljósmyndum sem fundist hafa frá sýningunni sjást Sápuauglýsing Hildar Hákonardóttur, silfursmíði Ásdísar Thoroddsen og Karlmenn og konur eftir Sigrúnu Sverrisdóttur. Fleri myndir frá sýningunni væru vel þegnar.

Listsýning íslenskra kvenna

SÝN036
1975
1/3 – 11/3
Norræna húsið
Samsýning

Veist þú meira um þessa sýningu?