Þetta var í fyrsta sinn sem Ásgerður tók þátt í hinni árlegu samsýningu danska sýningarhópsins Koleristerne. Aðdragandinn var sá að fremsti listvefari Dana, Nanna Hertoft, sem var meðlimur hópsins, hafði fyrst boðið Ásgerði að sýna með hópnum þegar þær sýndu saman í Svíþjóð 1972 (SÝN027) og svo aftur í Norræna húsinu 1974 (SÝN032), en það var ekki fyrr en nú sem hún þáði boðið. Hún sýndi fimm verk, og þar sem þeim voru gefnir danskir titlar í sýningarskrá, var það ekki fyrr en ljósmyndir frá sýningunni fundust, að ljóst var hvaða verk voru sýnd; Vindharpen = Stengleikur (ÁB065), Rød nat = Rautt regn (ÁB067), Indtegn = Eldstákn (ÁB069), Ekko = Bergmál (ÁB072) og Nat = Náttkemba (ÁB073). Í tilefni sýningarinnar tók Elín Pálmadóttir viðtal við Ásgerði (UMF0241). Í upphafi þess eru í stuttu máli dregin saman skrif danskra myndlistargagnrýnenda um verk Ásgerðar: „Berlingur fagnaði því að fá að kynnast verkum Ásgerðar Búadóttur, þegar gagnrýnandi blaðsins, Gunnar Jespersen hrósaði teppum hennar á sýningu Koloristanna í salnum Den Fire í Kaupmannahöfn 4.-19. janúar sl. Hann sagði að hún hefði stórkostleg tök á aðallitum sínum, bláu og brúnu, og léki á einfaldan og sterkan hátt með flöt teppisins, þungar og áhrifamiklar fellingar þess og hina lausu, flögrandi borða. Önnur blöð tóku í sama streng, Politiken kallaði t.d. verkin frábær og Ekstrablaðið sagði að Ásgerður hefði lagt til „glimrandi listaverk“. Eftir þessa sýningu varð Ásgerður fastagestur hópsins og var boðið að sýna með honum á hverju ári. Alls sýndi hún sjö sinnum með hópnum, síðast árið 1992.