Þetta var önnur einkasýning Ásgerðar, eftir Karfavogssýninguna (SÝN04) tveimur árum áður. En augljóslega stígur Ásgerður nokkuð stórt skef í ferli sínum með þessari sýningu. Sýningin er mun viðameiri, með 18 verk, mörg hver mun stærri en hún hefur sýnt áður, og sýnd í þekktum sýningarsal, ekki bara í heimahúsi í Austurbænum. Bæði Valtýr Pétursson og Kurt Zier skrifa nokkuð jákvæða dóma um sýninguna og Valtýr nefnir líka að „Hún er þegar orðin þekkt fyrir vefnað sinn, og ástæðulaust að kynna hana lesendum blaðsins.“ Þarna verða líka þau tímamót í ferli Ásgerðar að Listasafn Íslands kaupir eitt verkanna (Glóð; ÁB028). Mörg verkanna sem sýnd voru í Bogasalnum eiga sér þekkta sýningarsögu. Seinna meir eignaðist Listasafn Íslands einnig verkið Sól í Siena (ÁB047), Hönnunarsafn Íslands eignaðist Vefnaður II (ÁB021) og Listasafn Háskóla Íslands eignaðist Þrenning (ÁB044) Hins vegar vantar upplýsingar um eigendur þriggja verka; Blátt lauf (ÁB040), Dökkt lauf (ÁB050) og Sitra (ÁB049), en það síðastnefnda er alls óþekkt þar sem ekki einu sinni er til mynd af því. Allar upplýsingar/ljósmyndir eru því mjög vel þegnar.