SÝNINGARSÖGUR – SÖGUR UM SÝNINGAR

30. september 2025

Hér á safninu hafa hingað til verið skráðar 124 sýningar. Þetta eru allar þær sýningar, í breiðri merkingu þess orðs, þar sem verk Ásgerðar hafa verið sýnd almenningi.
Tilgangur þessarar skráningar hefur verið tvíþættur, að fá sem skýrasta mynd af því hvaða verk liggja eftir Ásgerði og að afla upplýsinga um sýningarsögu einstakra verka. Hver sýningarsíða inniheldur grunnupplýsingar um sýninguna, sýningarskrá, sýnd verk, ljósmyndir sem tengjast sýningunni og tengingar á fjölmiðlaumfjöllun.
Til að gera síðurnar áhugaverðari, hef ég undanfarið verið að skrifa aðeins ýtarlegar um hverja sýningu, þar reyni ég í stuttu máli að draga saman það sem ég veit um bakgrunn sýninganna, umfjöllun, verk Ásgerðar, og einnig hvaða upplýsingar mig vantar. Þessi vinna heldur áfram, en nú þegar er kominn texti við sýningar á tímabilinu 1950-1975 (SÝN001-SÝN036).
Mjög oft veita ljósmyndir frá sýningum upplýsingar sem ekki er hægt að finna í sýningarskrám eða öðrum gögnum. Til dæmis er meðfylgjandi ljósmynd frá sýningu Ásgerðar í Bogasal Þjóðminjasafnsins 1964 (SÝN017) sú eina þar sem verkið Dökkt lauf (ÁB050) sést (lengst til hægri). Ekkert annað er vitað um þetta verk.