Textílfélagið fagnaði 10 ára afmæli sínu með veglegu sýningu að Kjarvalsstöðum vorið 1985. Alls tóku 29 félagsmenn þátt í sýningunni með 87 verk, eins og hægt er að skoða í sýningarskrá (UMF0867). Tveir rýnendur fjölluðu um sýninguna. Eins og svo oft virðist Bragi Ásgeirsson hafa allt á hornum sér og vildi greinilega aðeins sjá textíllistina sem einhverskonar þjóðlegt, hefðbundið listhandverk og virðist vera mikið í mun að hún teljist ekki til myndlistar. Hann skrifar m.a. „Ekki veit ég um neinn sannan málara, sem hefur ofið í vef eða myndskreytt á efni með aðferð sáldþrykks og nefnt svo málaralist — og myndhöggvara myndi aldrei detta í hug að nefna lágmynd eftir sig né formrænar tilraunir innan trefjaglers „textíla“, nei guð hjálpi mér …“ (UMF0784). Umfjöllun Halldórs B. Runólfssonar (UMF0789) er mun málefnalegri og þvert á Braga undirstrikar hann mikilvægi textíllistarinnar sem myndlistarforms og skrifar m.a. „…en eins og menn vita þá kemur íhaldssemi Íslendinga í veg fyrir að aðrar listgreinar en málaralist njóti sannmælis. Reyndar er sú furðulega einstefna í listmati einn helsti dragbíturinn á starfsemi félaga á borð við Textílfélagið“. Enn hefur mér ekki tekist að finna ljósmyndir af sýningunni. Miðað við þann fjölda félagsmanna Textílfélagsins sem tók þátt hljóta góðar ljósmyndir að leynast hjá einhverjum þeirra.
Textílfélagið 10 ára afmælissýning
Veist þú meira um þessa sýningu?