Norræna listamiðstöðin, Sveaborg, Finnlandi, var stofnuð af Norrænu ráðherranefndinni 1978 og starfaði til 1996, og hafði að markmiði að stuðla að samnorrænu samstarfi á sviði myndlistar. „Borealis – Norræn myndlist 1983“, var fyrsta norræna farandsýningin sem Sveaborg stóð fyrir. Sýnd voru 140 verk 16 myndlistarmanna sem sænski myndlistarmaðurinn Tage Martin Hörling valdi í samvinnu við þjóðardeildir Norræna myndlistarbandalagsins. Íslensku þátttakendurnir voru þau Magnús Tómasson, Ásgerður Búadóttir og Gunnar Örn Gunnarsson. Sýningin var opnuð í Konsthallen, Helsinki, 27/5- 3/7 1983 í tengslum við heimsþing myndlistarmanna, sem þá stóð yfir í Helsinki. Sýningin var síðan í Kunsthal Charlottenborg, Kaupmannahöfn, Danmörku 27/8-18/9 1983; Sønderjyllands Museum, Tønder, Danmörku 15/10 1983-15/1 1984; Kunstnerenes Hus, Oslo, Noregi 23/2-18/3 1984; Kjarvalsstaðum, Reykjavík, Íslandi 7/4-23/4 1984; Nordens Hus, Torshavn, Færeyjum 1-30/6 1984; Hässelby Slott, Svíþjóð 14/9-14/10 1984 og Alingsås Museum, Svíþjóð 28/10-25/11 1984. Sýningin fékk nokkuð misjafna dóma. Af íslenskum rýnum fjölluðu þeir Bragi Ásgeirsson (UMF0410) og Guðbergur Bergsson (UMF0736) um sýninguna. Bragi skrifaði m.a. „Mest kom það á óvart, sé tekið mið af uppsetningunni að Kjarvalsstöðum, að aldursforsetar sýningarinnar eiga ótvírætt einna sterkasta og ferskasta framlagið. Á ég hér við þau Ásgerði Búadóttur og Færeyinginn Ingálv av Reyni, en myndir þeirra falla hvergi þrátt fyrir endurteknar heimsóknir“. Undir fyrirsögninni „Framsækinn norrænn fúkki“ skrifaði Guðbergur m.a. „Þá ber okkur inn í hinn fræga Vestursal Kjarvalsstaða. Hin glæsilegu og tæru teppi Ásgerðar eru fyrir suðurveggnum og hylja allan fúa, en þegar lengra er komið inn í salinn blasir hann við í öllu sínu veldi“. Photos, newspaper coverage and any other information on the exhibition gratefully appreciated.
Borealis
Veist þú meira um þessa sýningu?