Haustsýning FÍM 1973 var haldin í þá nýlega opnuðum Kjarvalsstöðum. Samkvæmt Braga Ásgeirssyni (UMF0229) var töluverð andstaða meðal myndlistarmanna um nafnið Kjarvalsstaðir og var „Myndlistarhúsið á Miklatúni“ notað af FÍM á auglýsingaplakati sýningarinnar. Ásgerður sýndi tvö verk. Annað var Eldstákn 1973 (ÁB069) sem er þekkt, en hitt (ÁB068) er óþekkt. Það var nefnt í sýningarskránni sem „Páskar, ull og hrosshár, 1972“. Í blaðaumfjöllun um sýninguna eru engar myndir af verkunum, en Elísabet Gunnarsdóttir (UMF0232) skrifar „Myndvefnaður Ásgerðar Búadóttur er fágaður og glæsilegur eins og hennar er vandi“, og Bragi Ásgeirsson (UMF0231) skrifar „Myndvefnaðurinn á sýningunni er fágaður og sómir sér vel, en þar sakna ég þó nýsköpunar í bland við tilraunagerð nútímans“, en auk Ásgerðar sýndu þær Barbara Árnason, Greta Björnsson og Vigdís Kristjánsdóttir myndvefnað. Þessar umfjallanir gefa því engar frekari upplýsingar um verkið „Páskar“, og þarf því nauðsinlega að finna ljósmyndir frá sýningunni til að upplýsa um hvaða verk þetta er. Vaskur hópur karlmanna var í sýningarnefnd eins og þá var siður hjá FÍM, þeir Leifur Breiðfjörð, Hringur Jóhannesson, Bragi Ásgeirsson, Svavar Guðnason, Einar Þorláksson, Hrólfur Sigurðsson, Guðmundur Benediktsson, Magnús Á. Árnason og Sigurjón Ólafsson, og kannski einhverjir þeirra hafi tekið ljósmyndir sem gætu skotið upp kollinum.
Haustsýning félags íslenzkra myndlistarmanna
Veist þú meira um þessa sýningu?