Þetta var þriðja einkasýning Ásgerðar, í þessum huggulega, litla sýningarsal í Unuhúsi, sem Ragnar í Smára hafði komið upp. Þarna sýndi hún 11 verk. Þrjú þau elstu höfðu verið á sýningu hennar í Bogasalnum 1964, en átta verkanna höfðu ekki verið sýnd áður, flest ofin 1966-1967. Fjögur þessara verka; Lognharpa (ÁB055), Venus (ÁB057), Vigilia (ÁB058 og Stillur (ÁB059) fylgja sömu mynduppbyggingu, með mjúkum, bogadregnum formum, lóðréttum línum og hvítum neðri kanti. Þarna var verkið Vefjarhiminn (ÁB062) sem hafði verið ofið að ósk Sambands Íslenskra Samvinnufélaga, sem gjöf til systurfélags SÍS í Danmörku. Verkið Maí (ÁB062), ofið 1967, markar upphafið af notkun Ásgerðar á hrosshári til að auka dýpt verka sinna. Þess má að lokum nefna að verkið Stillur, sem lengi var í eigu Jóns Óttars Ragnarssonar, er ófundið og líklegast glatað.