Þetta var mjög yfirgripsmikil sýning um trúarlega list á Íslandi á vegum kirkjulistarnefndar, en í henni áttu sæti þeir Björn Th. Björnsson, Gunnar Kristjánsson og Jóhannes S. Kjarval. Í dómnefnd sátu auk þeirra, Björg Þorsteinsdóttir og Níels Hafstein. Í viðamikilli sýningarská eru ritgerðir eftir þá Björn Th og Gunnar og Hörð Ágústsson. Í niðurlagi skrifar Björn Th „Með sýningu þeirri sem hér er til efnt, er höfða til alls þessa: virðingunni fyrir listminjum fortíðar og kjarks til þess að koma til móts við nýja grósku í myndlist okkar. Hér á listinni og kirkjunni að gefast færi á að tengjast að ný“. Ásgerður sýndi eitt verk á sýningunni og eru ljósmyndir af því úr myndasafni hennar. Verkið var í tvennu lagi. Annars vegar var lítil, ofin „smámynd“, ca 40 x 35 cm, og hins vegar vinnuteikning sem sýnir hvernig Ásgerður hafði hugsað sér verkið í fullri stærð, en það verk var aldrei ofið. Tveir listrýnendur skrifuðu um sýninguna, og báðir nefna þetta litla verk Ásgerðar. Guðbergur Bergsson skrifar (UMF0386) „En áleitnasta og eitt minnsta verkið á sýningunni er verk Ásgerðar Búadóttur og er af litlum ofnum krossi. Og þar sem armarnir mætast og mynda krossinn verður til Ioðinn ferhyrningur. Fátt er jafn listrænt, snjallt og gætt slíkri tvíræðri dulhyggju sem fjallar um og segir frá hlýju kvalanna eða gróðurreit armanna og táknsins”. Halldór B Runólfsson skrifar (UMF0387) „Án titils“, Ásgerðar Búadóttur er smár en kröftugur og meðfylgjandi vinnuteikning er einkar upplýsandi um persónuleg einkenni listar hennar og tilurð”. Smámyndin seldist og samkvæmt minnisbók Ásgerðar hét kaupandinn Þorbjörg Davíðsdóttir, en þó er spurningamerki við fornafnið. Eigandi verksins hefur ekki fundist og eru allar upplýsingar vel þegnar.
Páskar 1983: Kirkjulist á Kjarvalsstöðum
Veist þú meira um þessa sýningu?