„LEITAR ENN AÐ TÝNDUM VERKUM“ – EFTIRMÁLI 2

20. september 2025

Enn hafa tvö verk til viðbótar komið í ljós eftir að eigendur þeirra hafa haft samband.
Annað verkið (ÁB038) var sýnt og selt á fyrstu einkasýningu Ásgerðar að heimili okkar í Karfavoginum 1962 (SÝN014). Um það voru einungis til mjög takmarkaðar upplýsingar og engin ljósmynd. Vitað var að Ásgerður kallaði verkið Lauf og hafði skrifað hjá sér „Ingibjörg Ólafsdóttir, Hjúkrunarskóli Ísl“ sem kaupanda. Það var því mjög gleðilegt þegar núverandi eigandi verksins hafði samband, með ljósmynd af verkinu, og með upplýsngar sem skýrðu eigendasögu verksins. Hana má sjá á https://asgerdarsafn.is/listaverk/ab038/.
Svipaða sögu má segja um hitt verkið (ÁB119). Það var sýnt og selt á sýningunni Páskar 1983 (SÝN057), og einu upplýsingarnar um það voru ljósmynd úr myndasafni Ásgerðar, upplýsngar úr sýningarskrá, ásamt nafni kaupandans, sem því miður reyndist rangt (Þorbjörg Davíðsdóttir reyndist eiga að vera Þorbjörg Daníelsdóttir). Misritunin gerði vitanlega alla eftirgrennslan um kaupandann árangurslausa. Það var því líka mikið fagnaðarefni að núverandi eigandi frétti að yfirstandandi leit að verkum Ásgerðar og hafði samband með mynd af verkinu, auk upplýsinga sem að fullu skýrðu eigendasögu verksins. Hana má sjá á https://asgerdarsafn.is/listaverk/ab119/