Ein ástæðan er að reyna að finna áður óþekkt verk. Á fyrsta hluta ferilsins, á árunum 1950-1965, hélt Ásgerður enga bók yfir verk sín, eins og hvaða verk hún hefði ofið og/eða selt. Það er heldur alls óvíst að hún hafi átt ljósmyndir af öllum verkum sínum. Á þessum tíma setti hún oft verk sín í sölu á galleríum og verslunum, eða gaf í happdrætti til að styðja góð málefni. Með því að afla upplýsinga og finna ljósmyndir frá þessu tímabili fæst öruggari vitneskja um upphafsverk Ásgerðar.
Önnur ástæða þess að rekja og skrá sýningarsögu allra verka er að fá mynd af því hvaða verk hafa komið fyrir almennings sjónir og hver ekki. Það mætti hæglega setja upp nokkuð viðamikla yfirlitssýningu á verkum Ásgerðar, einungis með verkum sem aldrei hafa verið sýnd áður.
Þriðja ástæðan er tengingin milli sýninga- og eigendasögu. Með því að rekja sýningarsögu verks, er oft hægt að sjá hvar og hvenær verkið var selt, sem getur leitt til að upplýsingar finnist um kaupanda og þar með nýjar upplýsingar um eigendasögu (e. provenance) verksins.
Ég tek dæmi frá einni af þessum dálítið óhefðbundnari sýningum sem mamma tók þátt í á þessum árum – Menningarvika Samtaka Hernámsandstæðinga í byrjun maí 1965. Þar var auglýst samsýning 35 listamanna í Lindarbæ, og var mamma ein af þeim. En engin skrá yfir hin sýndu verk hefur fundist og ekki vitað hvort þetta var sölusýning eða ekki. Hvaða verk Ásgerðar voru þessari sýningu? Í tímaritinu Dagfara birtist ljósmynd frá opnun myndlistasýningarinnar, þar sem Þóroddur Guðmundsson skáld opnar sýninguna. Á bak við sýningargestina glittir í nokkur listaverk á vegg, þar af eitt verka Ásgerðar. Myndin gefur því áður óþekktar upplýsingar um sýningarsögu, að verkið Úlfgríma (ÁB053), ofið þetta sama ár, hafi verið sýnt þarna. Hvort Ásgerður hafi haft önnur verk á sýningunni er enn ekki vitað. Veistu meira um þessa sýningu? Endilega hafa samband gegnum info@asgerdarsafn.is
PS. Á ljósmyndinni er hægt að bera kennsl á annað verk á sýningunni en það er járnskúlptúrinn Stígandi eftir Guðmund Benediktsson, sem sést í forgrunni.