Ein af fyrstu sýningunum sem Ásgerður tók þátt í var opnunarsýning Listvinasalarins í maí 1951. Þetta fékk mig til að fara að skoða þetta í smá fjölskyldusamhengi þar sem ég fæddist sumarið 1952. Þegar Ásgerður og Björn Th flytja til baka frá Kaupmannahöfn í lok árs1949, eru þau tiltölulega nýgift, tæplega þrítug, með tveggja ára strák í lítill kjallaraíbúð á Langholtsveginum. Mamma er með töluvert af grafíkmyndum og teikningum í farteskinu, sem hún hafði unnið í náminu við Konunglegu listaakademíuna. Heimkomin notar hún nokkrar þessara teikninga af fuglum og konum sem fyrirmyndir fyrir fyrstu myndvefnaðina sem hún vefur í litlum veframma, áður en hún 1952 setur upp lítinn vefstól sem hafði með sér frá Kaupmannahöfn.
Hvorugt þeirra er í fastri vinnu, en augljóslega hefur pabbi verið með ýmis járn í eldinum. Ég býst við að hann hafi á þessum árum byrjað að kenna listasögu við Handíða- og myndlistarskólann, haldið fyrirlestra opna fyrir almenning, og byrjað að vinna að útvarpsþáttum með Gesti Þorgrímssyni, Samtímis var pabbi örugglega að vinna að hans fyrstu bókum. Strax 1950 er hann ásamt Jónasi Árnasýni útgefandi bókarinnar Við hjóðnemann 1950, með völdum útvarperindum liðins árs. Íslenzka teiknibókin í Árnasafni, sem hann hafði rannsakað á Khafnarárunum, kemur út 1954 með myndskreytingum eftir mömmu. „Íslenzk gullsmíði“ kemur einnig út 1954 og „Brotasilfur“ 1955. Sama ár tekur hann þátt í stofnun félagsins Íslenzk listiðn og er ritari félagsins sem Lúðvíg Guðmundsson skólastjóri veitir forstöðu.
En sem sagt, nokkru áður, árið 1951, stofnar hann, ásamt Gunnari Sigurðsyni (oft kenndan við Geysi) Listvinasalinn, á horni Freyjugötu og Mímisvegar. Rýmið, sem þeir leigja af Ásmundi Sveinssyni myndhöggvara heitir nú Ásmundarsalur.
Sagt var frá opnun Listvinasalarins í ýmsum fjölmiðlum og er einfaldast að vitna í eina af þessum fréttaklausum til að átta sig á hugmyndafræðinni að baki staðarins. Þetta er úr Vikunni frá 24/5 1951: „Föstudaginn 11. maí opnuðu Gunnar Sigurðsson og Björn Th. Björnsson listasal í nýjum húsakynnum á horni Freyjugötu og Mímisvegar (hús Ásmundar myndhöggvara Sveinssonar) og nefna þeir hann Listvinasalinn. Verður þar til sýnis og sölu úrval málverka, höggmynda, svartlistar og annarra listmuna eftir alla belztu íslenzka listamenn, og skipt um listaverk á 10—14 daga fresti. Listvinasalurinn er opinn daglega frá 13—20 og á fimmtudögum og sunnudögum til kl. 22.30. Aðgangur er ókeypis. Listvinasalurinn mun halda kynninga- og fræðslukvöld einu sinni í mánuði (nema í júlí og ágúst) og verða þar sýndar kvikmyndir um listir, flutt fræðsluerindi, ný hljómlist, upplestrar ungra skálda og rithöfunda, og efnt til umræðufunda um list og listastefnur. Kynningarkvöld þessi verða aðeins fyrir styrktaraðila, en ársgjald þeirra er kr. 100.00 (hjóna kr. 150.00). Efnt mun verða til sérsýninga á verkum erlendra og innlendra listamanna (3—5 á ári), og eiga styrktaraðilar jafnan ókeypis aðgang að þeim. Listvinasalurinn mun efna til happdrættis um 10—15 listaverk á ári, og verður dregið á Þorláksmessu. Þátttakendur i happdrættinu eru styrktaraðilar einir og farið eftir tölusetningu á skírteinum þeirra. Ætlunin er, að ný tímarit um listir og handbækur liggi frammi í Listvinasalnum, er fram líða stundir. Listvinasalurinn er óháður nokkurri einstakri listastefnu eða hópi listamanna, en hyggst leitast við að hafa frammi það, sem mest er um vert á hverjum tíma. Fyrst um sinn verða t. d. uppi málverk og vatnslitamyndir eftir Ásgrím Jónsson, Barböru Arnason, Gunnlaug Scheving, Hrólf Sigurðsson, Jóhannes Jóhannesson, Jóhannes S. Kjarval, Júlíönu Sveinsdóttur, Karl Kvaran, Kjartan Guðjónsson, Kristján Davíðsson, Magnús Árnason, Sigurð Sigurðsson, Snorra Arinbjarnar, Skarphéðin Haraldsson, Sverri Haraldsson, Valtý Pétursson, Vigdísi Einarsdóttur, Þorvald Skúlason og Örlyg Sigurðsson. Myndvefnaður eftir Ásgerði Ester. Höggmyndir eftir Ásmund Sveinsson, Gerði Helgadóttur og Sigurjón Ólafsson. Grafík eftir Ásgerði Ester og Jón Engilberts. Silfur eftir Björn Halldórsson og keramíkið er Laugarnesleir. Húsakynni Listvinasalarins eru skemmtileg og lítill vafi á því, að þangað munu listvinir sækja sér til andlegrar hressingar.
Þegar ég las þetta hugsaði ég að þeir félagar hafi nú kannski verið einum og stórhuga í áætlunum sínum, en svo rakst ég á grein í Fréttablaðinu frá 4/4 2008. Þar er sagt frá sýningu á vegum Listasafns ASÍ helgaða starfsemi Listvinasalarins. Þar skrifar pbb m.a. eftirfarandi „Listvinasalurinn var fyrsta gallerí sinnar tegundar í Reykjavík og atkvæðamikill þátttakandi í listalífi Reykjavíkur þau ár sem hann var starfræktur. Stjórnendur hans lögðu áherslu á nútímalist, sérstaklega geómetrískri og abstrakt. Ekki voru allir jafn hrifnir af þessari „nýju“ tegund myndlistar og umræður urðu oft heitar. Slagurinn um tilverurétt hins óhlutstæða málverks var stríður hér á landi og tók raunar við af harkalegum deilum um atómljóðið – ljóðlist áns ríms og stuðla. Margir íhaldssamari litu á þessar útlendu listastefnur sem þjóðhættulegar, þeim væri stefnt gegn aldakjarna íslenskrar menningar. Inn í þessa deilu komu andstæðar skoðanir og reynsla þeirrar kynslóðar sem sótt hafði listnám til Evrópu og Bandaríkjanna strax eftir stríð og var deilan um myndlistina raunar annar þáttur í fimm þátta drama í íslensku samfélagi þar sem vígvöllurinn færðist til eftir árum: ljóðið, myndlistin, tónlistin, leikhúsið og loks skáldsagan voru sviðin sem barist var á. Flestir listamannanna sem sýndu í Listvinasalnum voru ungir og íslenskir, en metnaðurinn var mikill hjá rekstraraðilum og er skemmtilegt að geta þess að í Listvinasalnum voru sýnd verk eftir listamennina Jean Arp, Picasso, Braque og Kandinsky sem Hörður Ágústsson kom með heim frá París í farangrinum. Listvinasalurinn var ekki bara vettvangur sýninga, þar voru líka haldin lífleg kynningarkvöld þar sem rætt var og rifist um myndlist, lesið úr óútkomnum verkum ungra rithöfunda og flutt metnaðarfull tónverk, auk kvikmyndakynninga, fyrirlestra um listasögu og heimspekilegrar umræðu. Þessi kynningarkvöld urðu svo vinsæl að þau sprengdu utan af sér rýmið og neyddust aðstandendur þeirra til að flytja þau í stærra húsnæði, í Leikhúskjallarann og Stjörnubíó. Er sú saga öll að litlu skráð og liggja heimildir víða ókannaðar.“
Nú, þá til baka til opnunarsýningar Listvinasalarins 1951. Á boðskortinu kemur fram að Ásgerður sýndi bæði myndvefnað og grafík, en hingað til hef ég ekkert vitað um hvaða verk þetta voru.
En nú var mér að áskotnast ein af dúkristum mömmu, fallega andlitsmynd. Það sem er sérstakt er að myndin er merkt (Ásgerður Ester ´48, og þannig frá Listaakademíuárunum), innrömmuð og einnig merkt að aftan með titli og númeri handskrifuðu af mömmu. Þetta bendir sterklega til þess að myndin hafi verið á sýningu, og mér vitanlega var þetta eina sölusýningin sem mamma nokkurn tíma sýndi grafík. Þegar ég svo fékk að vita að myndin kæmi úr listaverkasafni Gunnars Sigurðssonar er tengingin við opnunarsýningu Listvinasalarins 1951 augljós, því Gunnar var mikill listaverkasafnari og eignaðist myndir fjölmargra þeirra sem sýndu í Listvinasalnum.