Frekar lítið var fjallað um þessa athyglisverðu farand- og samsýningu margra okkar fremstu myndlistarmanna, líklega vegna þess að hún var haldin á landsbyggðinni. Voru sýnd um 70 verk eftir um 30 listamenn, málverk, svartlist, höggmyndir, listvefnaður og einnig húsagerðarlist. Bakgrunnur sýningarinnar var átak Menntamálaráðs sem nefndist „List um landið“. Sýningin varð til fyrir tilstilli Sambands austur-húnvetnskra kvenna, en það var síðan Eyborg Guðmundsdóttir listmálari, sem átti veg og vanda að sýningunni, en hún útvegaði verkin, setti upp sýninguna, sá um sýningarskrá og veggspjöld. Sýningin var fyrst opnuð í Félagsheimilinu á Blönduósi helgina 24-25. mars. Eftir það fengu önnur kvennasamtök að taka við sýningunni, sem var síðan sett upp í Safnahúsinu á Sauðárkróki, svo í Gagnfræðaskóla Selfoss, og að lokum í Safnahúsinu á Húsavík 5-6 maí, en sýningarskráin úr safni Ásgerðar einmitt merkt Kvenfélagasambandi suður-þingeyinga. Þar sem sýningarskráin inniheldur aðeins nöfn sýnenda eru það enn og aftur ljósmyndir sem veita okkur upplýsingar um sýnd verk, og hafa þessar ljósmyndir verið lánaðar af vef Héraðsskjalasafns Skagfirðinga.
List um landið – Listkynning
Veist þú meira um þessa sýningu?