Á þessari haustsýningu Félags Íslenskra Myndlistarmanna, sem haldin var í Norræna húsinu, voru sýnd 98 verk 36 höfunda. Eins og sagt er frá í nokkuð kaldhæðinni umfjöllun (UMF0217) þá „bárust sýningarstjórninni 233 verk og úrskurðaði stjórnin 135 þeirra ekki nógu góð til þess að eiga heima á sýningunni. Fyrir hönd listmálara í sýningarstjórn kváðu þeir Bragi Ásgeirsson, Vilhjálmur Bergsson, Benedikt Gunnarsson og Einar Hákonarson upp dóma yfir sýningarhæfum myndum og óhæfum. Sama verk unnu fyrir myndhöggvara, þeir Magnús Á. Árason og Guðmundur Benediktsson”. Ásgerður átti eitt verk á sýningunni og er það í sýningarskrá einungis nefnt „Vefnaður, 1971“. Engar ljósmyndir hafa fundist frá sýningunni sem sýna verkið. Aðeins eitt af þekktum verkum Ásgerðar er frá 1971. Það er verkið „Strengleikur“ (ÁB065) sem ofið var sérstaklega fyrir Þórunni og Wladimir Ashkenazy. Enn er því óvíst hvort þetta verk eða eitthvert annað hafi verið á sýningunni.