Tilefni og aðdraganda sýningarinnar er ágætlega lýst í sýningarskrá af Einari Hákonarsyni, formanni sýningarnefndar: „Sýningin „Íslenzk nútíma myndlist“ er einn liður Listahátíðar í Reykjavik. Auk þessa er hún fyrsta listsýning, sem opnuð er í hinu nýja myndlistarhúsi á Miklatúni og miklar vonir eru bundnar við að verði íslenzkri myndlist lyftistöng í komandi framtíð. Verk eftir 61 höfund bárust, og sýningarnefnd valdi 101 verk eftir 36 höfunda á sýninguna, sem er ætlað að gefa sem bezta yfirsýn af þeim verkum, er inn komu. Sýningarnefnd tók þá stefnu, að sem flest sjónarmið í íslenzkri myndlist, sem uppi eru nú, fengju að njóta sín, þannig að breidd sýningarinnar yrði sem mest. Sýningin spannar allt frá Finni Jónssyni, sem er fæddur 1892, til nokkurra ungra listamanna, er koma nú fram í fyrsta sinn“. Ásgerður var með þrjú verk á sýningunni, sem hún hafði upphaflega sýnt í Unuhúsi 1967 (SÝN021). Auk þessa prýddi verk hennar „Stormharpan“ frá 1969 (ÁB063) forsíðu dagskrárbæklings Listahátíðar.