Á þessari sýningu má segja að saman komi fimm fremstu listvefarar Norðurlandanna. Bakgrunnur sýningarinnar tengdist Menningarmiðstöð höfuðborga Norðurlandanna (1983-2002), sem var stofnun sem hafði það að markmiði að miðla áhuga og þekkingu á menningu. Miðstöð starfseminnar var Hässelby-höllin í Stokkhólmi, þar sem m.a. voru haldnar árlegar myndlistarsýningar. Þetta ár, 1972, hafði gamalli kornhlöðu við Hässelby-höllina verið breytt í nýjan sýningarsal, nefndur ”Gallerie Plaisiren” Til að vígja salinn var boðið til Norrænnar myndvefnaðarsýningar, þar sem hvert Norðurlandanna valdi sinn fremsta veflistarmann. FÍM valdi Ásgerði sem fulltrúa Íslands, en frá hinum Norðurlöndunum komu Synnöve Anker Aurdal frá Noregi, Elisabet Hasselberg Olson frá Svíþjóð, Nanna Hertoft frá Danmörku og Kolsi-Mákela frá Finnlandi. Þeim var öllum boðið að vera viðstaddar opnunina og dvöldu þar að ég held í um vikutíma. Án efa var grunnurinn hér lagður að áralangri vináttu og samvinnu þeirra á milli í þágu norrænnar vefjarlistar. Sérstaklega tengdust Ásgerður og Nanna Hertoft löngum og sterkum vináttuböndum. Afraksturinn, beint og óbeint, má t.d. sjá í sýningunni Norræn vefjarlist á Listahátíð 1974 (SÝN032) og fyrsta Norræna textílþríæringnum 1976-1977 (SÝN041). Einnig bauð Nanna Ásgerði að gerast meðlimur danska myndlistarhópsins Koloristerna sem sýndi árlega. Ásgerður sýndi fyrst með hópnum 1975 og alls sjö sinnum til 1992.
Nordisk textil
Veist þú meira um þessa sýningu?